Opin vísindi

Án táknmáls er ekkert líf: Upp með hendur!

Án táknmáls er ekkert líf: Upp með hendur!


Titill: Án táknmáls er ekkert líf: Upp með hendur!
Höfundur: Stefánsdóttir, Valgerður
Leiðbeinandi: Gísli Pálsson
Útgáfa: 2023-12
Tungumál: Íslenska
Háskóli/Stofnun: Háskóli Íslands
University of Iceland
Svið: Félagsvísindasvið (HÍ)
School of Social Sciences (UI)
Deild: Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild (HÍ)
Faculty of Sociology, Anthropology and Folkloristics (UI)
ISSN: 978-9935-9717-4-6
Efnisorð: Doktorsritgerðir; Íslenskt táknmál; Menntun; Döff menning; Málvísindaleg mannfræði
URI: https://hdl.handle.net/20.500.11815/4584

Skoða fulla færslu

Útdráttur:

 
Rannsóknin sem hér er kynnt er fyrsta heildstæða yfirlitið og rannsókn á íslensku táknmáli (ÍTM) og þróun döff menningar sem unnin hefur verið hér á landi. Þrjár rannsóknarspurningar voru hafðar að leiðarljósi: Spurt var hvernig ÍTM og samfélag döff varð til og þróaðist, hvaða þættir hafa styrkt lífvænleika íslensks táknmáls, og hvaða þættir skapa hættu á útrýmingu íslensks táknmáls og döff menningar, því þrátt fyrir að vera viðurkennt í lögum er íslenskt táknmál talið vera í útrýmingarhættu. Sjónarhornið á efnið er frá málvísindalegri mannfræði (e. linguistic anthropology) þar sem horft er á málið eins og það hefur myndast í gegnum söguna í sérstöku menningarlegu samhengi í tíma og rúmi. Gögn rannsóknarinnar eru söguleg, svo sem gömul viðtöl við döff fólk um skólagöngu og líf þess, skjöl og greinar en einnig ný viðtöl sem varpa frekara ljósi á þróun máls, söguna og samhengið. Beitt var eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem aðferðafræðileg nálgun við greiningu gagna réðst af viðfangsefninu hverju sinni, þar á meðal grundaðri kenningu, orðræðugreiningu og sögulegri nálgun við greiningu orðræðu sem felur í sér fjölprófun (e. triangulation). Viðfangsefni verksins er íslenskt táknmál, félagsleg samskipti, samfélagsgerð og menning en einnig samspil menningar og sögu, atbeina og valds. Af rannsókninni má draga þrjár ályktanir sem svara rannsóknarspurningunum. Í fyrsta lagi varð íslenskt táknmál til í íslenskum veruleika en kom ekki úr dönsku táknmáli eins og fræðimenn hafa hingað til gert ráð fyrir. Mál byrjaði að þróast innan skólanna sem voru starfræktir hér á landi frá árinu 1867. Á tímabilinu frá 1867 til 1890 má gera ráð fyrir áhrifum frá dönsku táknmáli. Hins vegar er á 19. öldinni ekki hægt að sjá að hér hafi orðið til málsamfélag utan þess sem skólinn skapaði og því má ætla að fyrstu málgerðirnar sem urðu til innan skólans hafi ekki þróast áfram heldur dáið út. Tengsl á milli einstaklinga af ólíkum kynslóðum virðast þó hafa borið áfram stök tákn úr dönsku táknmáli. Mál sem kallað var fingramál þróaðist innan samfélags döff fólks á fyrri hluta 20. aldar en dó út með því fólki sem var í Málleysingjaskólanum fyrir árið 1944. Uppruna íslensks táknmáls sem talað er í dag má rekja til Málleysingjaskólans eins og hann var starfræktur eftir 1944 en þar varð til sjálfsprottið mál meðal barnanna úr þeirra veruleika, án tengingar við önnur mál og varð flóknara með hverri nýrri kynslóð. Málið hefur þróast mikið frá þeim tíma innan döff samfélags, sérstaklega eftir stofnun Félags heyrnarlausra árið 1960. Niðurstöður annarra fræðimanna um að mörg tákn í ÍTM líkist táknum í dönsku táknmáli má skýra út frá áhrifum frá norrænum táknmálum eftir að Félag heyrnarlausra gekk í Norðurlandaráð heyrnarlausra árið 1974. Eftir að rannsóknir á ÍTM og kennsla ÍTM hófust með tilkomu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra árið 1990 og íslenska samfélagið opnaðist fyrir döff fólki með túlkaþjónustu víkkaði notkunarsvið málsins. Með ríkari þátttöku döff fólks í íslensku samfélagi og aukinni menntun jókst orðaforði málsins jafnt og þétt og samhliða varð málfræðin flóknari með hverri kynslóð. Í öðru lagi benda niðurstöður til þess að það sem styrki íslenskt táknmál séu fjölbreytileg samskipti á málinu en einnig að til þess að það lifi áfram þurfi nýir málhafar að bætast við samfélagið. Málið byrjaði að þróast í hópi skólabarna í samskiptum um það sem skipti þau máli og þroskaðist síðan áfram og styrktist innan döff samfélags og menningar. Döff menning er óaðskiljanleg frá ÍTM og innan hennar þarf máltaka barna að fara fram. Eftir að sérskóla fyrir döff börn var lokað þarf nú markvisst að horfa til þess að styrkja eðlileg samskipti ÍTM barna innan döff formgerða innan og utan skóla. Aðrir þættir sem hafa styrkt íslenskt táknmál eru aukin menntun og þátttaka döff fólks í íslensku samfélagi í gegnum túlkaþjónustu, sem eykur notkunarsvið málsins. Má þar sérstaklega nefna aðgengi döff fólks að menntun í gegnum táknmálstúlka. Lögbundinn réttur til túlkaþjónustu í daglegu lífi, til dæmis í atvinnulífi, er þó ekki fyrir hendi og takmarkar þátttöku döff fólks. Kennsla ÍTM fyrir heyrandi fólk hefur einnig eflt málið sem og rannsóknir sem gerðar hafa verið á málinu til dæmis vegna námsefnisgerðar og kennslu. Lög nr. 61/2011 veittu ÍTM formlega stöðu sem tungumál en tenging málsins við skerðingu og heilbrigðiskerfið virðist standa í vegi fyrir því að litið sé á það sem slíkt eða sem mögulegt fyrsta mál barna. Enn þá má því segja að lagaleg viðurkenning á íslensku táknmáli sé fyrst og fremst táknræn. Í þriðja lagi býr ÍTM við alvarlega ógn við tilvist sína vegna þess valds sem býr í tengslum ÍTM og döff fólks við umhverfið eða í vistkerfi málsins og hugmyndafræðinni sem umlykur það en vantraust á íslensku táknmáli og döff fólki gengur eins og rauður þráður í gegnum söguna. Á grundvelli hugmyndafræði þeirra sem ráða og gera áætlanir hefur þeim svæðum, þar sem börn gátu átt fjölbreytileg samskipti á íslensku táknmáli, til dæmis verið eytt á undanförnum áratugum. Einnig hefur á grundvelli málhugmyndafræði verið talið nauðsynlegt að börn tali og heyri íslensku til þess að öðlast lífsgæði og menntun og að ÍTM standi á einhvern hátt í vegi fyrir því. Ákvarðanir stjórnvalda um málið og fólkið sem talar það eru byggðar á hugmyndafræði sem oft samrýmist ekki þeim veruleika sem döff fólk upplifir og gengur þvert á það sem styrkir lífvænleika málsins og það sem döff fólk lítur á sem lífsgæði. Þannig hefur málhugmyndafræði og viðhorf til íslensks táknmáls neikvæð áhrif á lífvænleika málsins þrátt fyrir þá lagalegu vernd sem því er ætlað að njóta.
 
The study presented here is the first comprehensive overview and study of Icelandic Sign Language (ÍTM) and the development of Deaf culture conducted in this country. Three research questions guided the research: It was inquired how ÍTM and the Deaf community originated and evolved, which factors have enhanced the viability of Icelandic sign language, and which factors pose a risk of Icelandic sign language and Deaf culture's extinction. Despite legal recognition, Icelandic sign language is considered endangered. The perspective stems from linguistic anthropology, where the language is examined as it has evolved over time within a specific cultural context. The research data comprises historical sources such as old interviews with Deaf individuals about schooling and their lives, documents, articles, and recent interviews that shed further light on ÍTM's development, history, and context. Qualitative research methods are employed, with the methodological approach to data analysis adapting to the subject at hand, including grounded theory, discourse analysis, and a discourse-historical approach, primarily utilizing triangulation. The thesis explores language, social relations, social structures, and culture, as well as the interplay of culture and history, power, and agency. Three conclusions are drawn from the study that address the research questions. Firstly, Icelandic sign language emerged within the Icelandic reality, rather than originating from Danish sign language as previously assumed. The language's development commenced within schools operating in the country since 1867. In the period from 1867 to 1890, we can assume the influence of Danish sign language. However, While Danish sign language likely influenced the period from 1867 to 1890, there's insufficient evidence of a language community beyond the school-created one during the 19th century. Consequently, it can be assumed the initial language created within the school context didn't advance but faded. Interactions across different generations appear to have transmitted isolated signs from Danish sign language. A finger language emerged within the Deaf community in the first half of the 20th century but vanished with those attending the Deaf School before 1944. The contemporary Icelandic sign language can be traced back to the Deaf School's post-1944 era, with a spontaneous language evolving among children in their reality, unrelated to other languages, and gaining complexity across successive generations. The language has significantly developed within the Deaf community, particularly following the establishment of the Association of the Deaf in 1960. The resemblance of many signs in ÍTM to Danish sign language, as noted by other scholars, can be attributed to the influence of Nordic sign languages after the Association of the Deaf's affiliation with the Nordic Council of the Deaf in 1974. After research on ÍTM and instruction of ÍTM commenced with the establishment of the Communication Center for the Deaf in 1990, and Icelandic society opened up for ÍTM people with interpreting services, the language's domain expanded. Increased participation of Deaf individuals in Icelandic society and improved education led to a gradual expansion of the language's vocabulary. Concurrently, grammar became more complex with each generation. Secondly, the results indicate that diverse communication in the language strengthens Icelandic sign language. However, for it to endure, new speakers must join the community. The language emerged in a group of school children communicating about what mattered to them and further developing and gaining strength within Deaf society and culture. Deaf culture is intertwined with ÍTM, and children's language acquisition must occur within this milieu. Following the closure of the special school for ÍTM children, there's now a need to systematically reinforce natural communication among ÍTM children within Deaf structures both within and outside the educational context. Enhanced education and increased participation of ÍTM people in Icelandic society via interpreting services have also contributed to the language's strength. Noteworthy is ÍTM individuals' access to education through sign language interpreters. However, there's no statutory right to interpreter services in daily life, such as employment, limiting Deaf individuals' participation. Teaching ÍTM to hearing individuals has also fortified the language, along with linguistic research for curriculum development and teaching. Although Law no. 61/2011 conferred official status to ÍTM as a language, its connection to impairment and the healthcare system hampers its recognition as a potential first language for children. Despite this legal recognition, Icelandic sign language's status remains largely symbolic. Thirdly, ÍTM confronts a serious existential threat due to the power dynamics inherent in the relationship between ÍTM, Deaf individuals, the environment, and the surrounding ideology. A pervasive skepticism of Icelandic sign language and ÍTM individuals is woven throughout history. Decision-making by authorities and planners, rooted in prevailing ideologies, has led to the dismantling of spaces conducive to communication in Icelandic sign language. Furthermore, language ideology, has deemed mastery of spoken Icelandic necessary for quality of life and education, often construing ÍTM as an impediment. Government decisions regarding the language and its speakers frequently diverge from the experiences of ÍTM individuals, contradicting factors that enhance the language's viability and the ÍTM people´s perception of quality of life. Consequently, language ideology and attitudes toward Icelandic sign language have adversely affected its viability, despite its intended legal protections.
 

Skrár

Þetta verk birtist í eftirfarandi safni/söfnum: