Opin vísindi

Huldufreyjur: Ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar

Huldufreyjur: Ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar


Titill: Huldufreyjur: Ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar
Aðrir titlar: Hidden history of housekeepers: Lives and labor of housekeepers in rural Iceland in the second half of the 20th century
Höfundur: Kaldakvísl Eygerðardóttir, Dalrún
Leiðbeinandi: Erla Hulda Halldórsdóttir
Útgáfa: 2022
Tungumál: Íslenska
Umfang: 270
Háskóli/Stofnun: Háskóli íslands
University of Iceland
Svið: Hugvísindasvið (HÍ)
School of Humanities (UI)
Deild: Sagnfræði- og heimspekideild (HÍ)
Faculty of History and Philosophy (UI)
ISBN: 978-9935-9640-8-3
Efnisorð: Ráðskonur; Vinnufólk; Einstæðir foreldrar; Bændabýli; Munnleg saga; Oral history; Doktorsritgerðir
URI: https://hdl.handle.net/20.500.11815/3198

Skoða fulla færslu

Útdráttur:

Ráðskonur eiga sér langa sögu í íslensku samfélagi. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að rannsaka störf og félagslega stöðu ráðskvenna sem störfuðu á einkaheimilum í sveit á Íslandi á tímabilinu 1950–2000. Í bakgrunnskafla er einnig fjallað stuttlega um ráðskonur á Íslandi á tímabilinu 1850–1950 til að fá heildstæða mynd af þróun starfsins í sögulegu samhengi. Rannsóknin er þríþætt. Í fyrsta lagi snýst hún um réttindi og skyldur ráðskvenna sem störfuðu á sveitaheimilum á síðari hluta 20. aldar. Í öðru lagi er leitað svara við því hvers vegna konur gerðust ráðskonur í sveit á tímabili þegar konur höfðu mun fleiri atvinnutækifæri en áður í sögu byggðar Íslands. Í þriðja lagi felur rannsóknin í sér að skoða upplifun ráðskvenna af starfinu og hvernig ráðskonustarfið hafði áhrif á sjálfsmynd þeirra. Til að ná settu marki var gagna aflað með viðtölum. Alls voru tekin 58 viðtöl og þar af var 41 viðtal við konur sem gegnt höfðu ráðskonustarfi á 72 sveitaheimilum á tímabilinu 1950–2000. Í viðtölunum var sérstök áhersla lögð á að draga fram upplifun og álit ráðskvenna á starfi sínu. Rannsóknin byggði öðru fremur á aðferðafræði munnlegrar sögu (e. oral history), allt frá öflun gagnanna með viðtölum, til greiningar og miðlunar þeirra. Ráðskona á sveitaheimili var vinnukraftur sem bjó á vinnustaðnum og fékk laun auk starfshlunninda sem öðru fremur fólust í húsnæði og fæði. Störf ráðskvenna tóku fyrst og fremst til verka innanstokks vegna heimilishalds. Hluti ráðskvenna starfaði þó samhliða við hefðbundin bústörf utanstokks. Rannsóknin sýnir að einstæðar mæður voru fjölmennastar í hópi ráðskvenna í sveit á síðari hluta 20. aldar. Jafnframt kom í ljós að ásókn einstæðra mæðra í ráðskonustarfið kom öðru fremur til vegna þess að það þjónaði um leið sem eins konar félagslegt úrræði fyrir þær. Meginforsendur þess að einstæðar mæður sóttust eftir ráðskonustarfi á sveitaheimilum á árunum 1950–2000 var húsnæðisvandi þeirra, skortur á baklandi og skortur á dagvistunarúrræðum framan af tímabilinu. Konurnar ræddu mikið um það hvernig umgjörð og eiginleikar ráðskonustarfsins á sveitabæjum gerðu þeim kleift að losna úr þrengingum sínum. Í þeirra augum var ráðskonustaðan millilending í lífi þeirra, sem gerði þeim kleift að fóta sig og ná áttum áður en þær héldu á önnur mið. Rannsóknin sýnir að stærsti einstaki hópur vinnuveitenda ráðskvenna var einhleypir bændur. Í samfélagi sveitanna þar sem kynbundin verkaskipting var enn ráðandi, leystu ráðskonur úr aðkallandi vanda sveitabýla þar sem konur vantaði til að stýra heimilum. Sökum þess að starfsvettvangur ráðskvenna var einkaheimilið voru þær í starfi sínu berskjaldaðar fyrir því að vera beittar misrétti frá hendi ábúenda. Ofbeldi, ekki síst kynferðislegt, sem ráðskonur máttu þola, er dæmi um verstu tilvikin sem fengust þrifist vegna þess að eftirlit var ekkert með störfum þeirra.

Skrár

Þetta verk birtist í eftirfarandi safni/söfnum: