Poetiske fortællinger i traumatiske tider. Om jordiske relationer, resonans, bearbejdelse og alternative levemåder i dansk samtidslitteratur og samtidskunst.
Dagsetning
Höfundar
Journal Title
Journal ISSN
Volume Title
Útgefandi
University of Iceland, School of Humanities, Faculty of Languages and Cultures
Útdráttur
Doktorsritgerðin fjallar um jarðnesk tengsl, samsveiflu (þ. Räsonanz), trámaúrvinnslu og hugmyndir um annars konar lifnaðarhætti í dönskum samtímabókmenntum og samtímamyndlist. Kenning mín er að loftslagsbreytingar, og þær loftslagshamfarir sem nú eiga sér stað, hafi orsakað trámatískt rof í ríkjandi hugmyndaheimi og því þekkingarrými (fr. épistémè) sem við búum við í dag. Með hugtakinu þekkingarrými, sem sótt er til franska heimspekingsins Michel Foucault, er átt við möguleika og takmarkanir hugsunarinnar hverju sinni. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að sú breyting á hugarfari sem hið trámatíska rof hefur orsakað endurspeglist á markverðan hátt í dönskum samtímabókmenntum og samtímalist. Í stað þess að líta til verka sem á augljósan hátt vilja vekja til umhugsunar um loftslagsbreytingar og hafa áhrif á hegðun fólks er sjónum beint að verkum sem bregðast við ástandinu á hljóðlegan og ljóðrænan hátt sem ég skilgreini sem ljóðrænar frásagnir.
Hugtakið um ljóðrænar frásagnir hef ég þróað á grunni fræðitexta og kenninga sem sóttar eru til fyrirbærafræðinganna Hartmut Rosa og Gaston Bachelard, sem og frásagnakenninga Walters Benjamin. Ég nota hugtakið til að sýna fram á hvernig hægt er að vinna markvisst með vitund um jarðnesk tengsl og samsveiflu í listum og bókmenntum, og hvernig ljóðrænar frásagnir geti gagnast okkur við að bæði skynja og skilja heiminn, vinna úr trámatískum upplifunum, hugsa út frá öðrum forsendum en þeim sem við höfum tekið í arf, efla sköpunarkraft og sjá fyrir okkur aðra mögulega lifnaðarhætti. Í þessu samhengi fjalla ég um og greini verk eftir listamennina Astrid Kruse Jensen, Trine Søndergaard, Mathias Svold og Ulrik Hasemann, sem öll vinna með ljósmyndun í verkum sínum, ásamt Rune Bosse sem vinnur einkum með innsetningar og skúlptúra. Flest verkin sem ég tek til umfjöllunar eru frá tímabilinu 2017-2024.
Ljóðrænar frásagnir leika einnig hlutverk þegar kemur að greiningu minni á því hvernig danskir listamenn og rithöfundar hafa unnið úr því tráma sem loftslagsbreytingar hafa skapað. Í þessu samhengi skoða ég ítarlega verk eftir rithöfundana Solvej Balle og Theis Ørntoft, en fjalla einnig um Har døden taget noget fra dig så giv det tilbage eftir Naju Marie Aidt og ljósmyndaverkið The Evening Before eftir Astrid Kruse Jensen til að útskýra þátt frásagnarinnar í trámatískri úrvinnslu.
Ég færi rök fyrir því að verk Theis Ørntoft, ljóðasafnið Digte 2014 (2014) og skáldsögurnar Solar (2018) og Jordisk (2023), megi lesa sem samhangandi trámaúrvinnslu á því ástandi sem loftlagshamfarir og umhverfiskrísa hafa skapað, og sýni jafnframt fram á hvernig Ørntoft nýtir sér ýmsar kenningar um jarðnesk tengsl og annarskonar lifnaðarhætti í Jordisk um leið og hann varpar nýju ljósi á þær kenningar sem hann vinnur með. Í því samhengi er lögð sérstök áhersla á úrvinnslu hans á kenningum Donnu Haraway.
Ég færi einnig rök fyrir því að lesa megi skáldsögu Solvej Balle, Om udregning af rumfang IV (2020-2023), sem uppbyggilega úrvinnslu á því trámatíska ástandi sem við búum við í dag, og sem tilraun til að ímynda sér líf í annars konar þekkingarrými. Eins og Balle sýnir fram á getur verið gagnlegt að hverfa frá línulegri hugsun um tímann, þar sem litið er á hvert skref sem framfaraskref, og skapa sér þess í stað rými til að hugsa hvernig við getum aðlagast nýjum heimkynnum og lifað í betri sátt við Jörðina. Við slíkar aðstæður skapast nýjar forsendur fyrir annars konar lifnaðarháttum þar sem markmiðið verður að viðhalda lífi, bæði sínu eigin og annarra, rækta tengsl, sýna umhyggju, safna frásögnum og vera til staðar í þeim tíma sem við óhjákvæmilega erum hluti af. Gagnrýni Walters Benjamin og Ursulu Le Guin á sögu sigurvegaranna, sem og gagnrýni þeirra á línulega framfarasögu, leikur stórt hlutverk í greiningu minni á skáldsögu Balle.
Helsta niðurstaða ritgerðarinnar er sú að í Danmörku, þar sem náttúran er einstaklega viðkvæm og berskjölduð fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, megi greina trámatísk viðbrögð við loftslagsbreytingum í bæði samtímabókmenntum og samtímalist. Í gegnum umfjöllun og greiningu á verkum eftir danska listamenn og rithöfunda er sýnt fram á hvernig uppbyggileg trámaúrvinnsla, sem meðal annars á sér stað í gegnum ljóðrænar frásagnir, getur átt virkan þátt í móta gagnrýnið viðhorf til mannmiðaðs hugsunarháttar og skapa möguleika til að endurhugsa jarðnesk tengsl og sjá fyrir sér annars konar lifnaðarhætti en við búum við í dag. Fyrir utan sálgreininguna og fyrirbærafræðina eru það einkum textar um jarðnesk tengsl eftir Bruno Latour, Donnu Haraway og Emanuele Coccia sem móta þann fræðilega og kenningalega grunn sem ritgerðin byggir á, auk skrifa Walters Benjamin um díalektískar myndir og frásagnir, hugtök Michels Foucault um þekkingarrými og heterótópíur, og hugtak Hartmuts Rosa um samsveiflu. Þar fyrir utan hafa textar eftir heimspekingana Jacques Derrida og Paul Ricoeur haft mikil áhrif á túlkun mína á kenningum sálgreiningarinnar um trámaúrvinnslu og þá sérstaklega um þátt frásagnarinnar í úrvinnslu trámatískra minninga.
Lýsing
Efnisorð
Danskar bókmenntir, Norrænar bókmenntir, Ljósmyndir, Hnattrænar breytingar, Sálræn áföll, Pósthúmanismi, Climate change, Rune Bosse, Danish literature, Climate change, Photographs, Trauma