Vistheimt á Íslandi

dc.contributorLandbúnaðarháskóli Íslands
dc.contributor.authorAradóttir, Ása Lovísa
dc.contributor.authorMagnússon, Guðjón
dc.contributor.authorHalldórsson, Guðmundur
dc.contributor.authorSvavarsdóttir, Kristín
dc.contributor.authorArnalds, Ólafur Gestur
dc.contributor.authorPetursdottir, Thorunn
dc.contributor.departmentNáttúra og skógur
dc.date.accessioned2026-01-26T14:15:02Z
dc.date.available2026-01-26T14:15:02Z
dc.date.issued2011
dc.description.abstractÍ þessu riti er í fyrsta sinn birt yfirlit yfir endurheimt hnignaðra vistkerfa á Íslandi. Um er að ræða hluta af heildaryfirliti yfir stöðu vistheimtar á Norðurlöndum sem nú er verið að taka saman á vegum norræns netverks um endurheimt skemmdra vistkerfa á Norðurlöndum. Hnignun vistkerfa er alþjóðlegt vandamál. Á síðustu hálfri öld hefur mannkynið breytt vistkerfum jarðar hraðar og meir en á nokkru öðru tímabili í sögu mannkyns, m.a. vegna ofnýtingar lands, rasks vegna mannvirkjagerðar, námugraftrar, mengunar og þéttbýlismyndunar. Þessi þróun hefur leitt til verulegrar hnignunar á líffræðilegri fjölbreytni og mikilvægum þáttum vistkerfaþjónustu, sem haft hefur miklar afleiðingar fyrir umhverfi, hagkerfi og samfélög víða um heim. Til að bregðast við þessum vanda er brýnt að efla endurheimt vistkerfa á hnattræna vísu. Vistheimt stuðlar að endurreisn líffræðilegrar fjölbreytni og margvíslegrar vistkerfaþjónustu og er jafnframt mikilvægur þáttur í mótvægisaðgerðum gegn hraðfara loftslagsbreytingum. Vistheimt er því einn af samnefnurum Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD), Loftslagssamningsins (UN-FCCC), og Samningsins um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UN-CCD). Í samþykkt aðildarþings samningsins um líffræðilega fjölbreytni í Nagoya í Japan haustið 2010 var sett það markmið að endurheimta 15% af skemmdum vistkerfum í heiminum fyrir árið 2020. Hnignun vistkerfa hefur haft hvað alvarlegastar afleiðingar í þróunarlöndunum þar sem eyðimerkurmyndun og hnignun gróðurlenda ógnar lífsafkomu hundruða milljóna manna. Í þróuðum löndum, eins og Norðurlöndunum, er einnig mikið álag á umhverfið, sem hefur neikvæð áhrif á lífsgæði fólks, líffræðilegan fjölbreytileika, lykilvistkerfi, vatnsauðlindir, o.fl. Vandamálin eru þó mismunandi eftir löndum og svæðum innan landa. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari þróun; aðeins lítið brot er eftir af náttúrlegum skógarvistkerfum, votlendi hefur verið ræst fram og vistkerfum raskað með ósjálfbærri landnýtingu. Á öllum Norðurlöndunum er lögð töluverð áhersla á endurheimt vistkerfa. Þrátt fyrir það hefur ekki verið til neinn sameiginlegur norrænn vettvangur þar sem fjallað er um vistheimt, né heildaryfirlit yfir vistheimt á Norðurlöndum. Samstarfsnetið VISTHEIMT – endurheimt skemmdra vistkerfa á Norðurlöndum var stofnað til að bæta úr þessu. Enskt heiti þess er Restoration of Damaged Ecosystems in the Nordic Countries eða ReNo. ReNo er samstarfsnet allra Norðurlandanna, nema Grænlands og Álandseyja. Árið 2009 var ReNo tilnefnt af umhverfisráðuneyti Íslands sem eitt af þemaverkefnum Norðurlandaráðs. Markmið þess er að tengja norræn endurheimtarverkefni og miðla reynslu milli landa og lykilaðila í vistheimt og efla þannig endurheimt skemmdra vistkerfa á Norðurlöndum. Netinu er stýrt af stýrihópi, sem í eiga sæti aðilar frá öllum þátttökulöndunum en dagleg stjórn er í höndum verkefnisstjóra. Innan landanna eru síðan hópar sem mynda innlend samstarfsnet. Alls eiga 14 norrænar stofnanir beina aðild að ReNo, auk fjölda aðila sem eru þátttakendur í samstarfsneti innan hvers lands. Þátttakendur koma víða að, til dæmis frá háskólum, opinberum stofnunum sem fást við verndun og endurheimt vistkerfa, stofnunum sem sjá um framkvæmdir á vegum hins opinbera, orkufyrirtækjum og frjálsum félagasamtökum. Markmið ReNo netverksins eru að: a. fá heildstætt yfirlit yfir umfang, stöðu, aðferðir og árangur endurheimtarverkefna á Norðurlöndum; b. auka þekkingu og færni í vistheimt; c. auka skilning á þýðingu og möguleikum vistheimtar fyrir náttúruvernd; d. þróa fjölþátta viðmið fyrir vistheimt þar sem m.a. sé tekið tillit til vistfræðilegra, félagsfræðilegra, hagfræðilegra og menningarlegra þátta, og e. skilgreina „þekkingareyður“ og skipuleggja rannsóknarverkefni til að fylla í þær. Vorið 2009 hófst vinna við að taka saman yfirlit yfir umfang, stöðu, aðferðir og árangur vistheimtarverkefna á Íslandi. Efnt var til funda með helstu aðilum er vinna við vistheimt og voru þeir sóttir af fulltrúum framkvæmdaaðila, stjórnsýslu, frjálsra félagasamtaka og vísindasamfélagsins. Á fundunum var kynntur rammi fyrir landsskýrslu um vistheimt á Íslandi og þess farið á leit við þátttakendur að þeir leggðu til efni í slíka skýrslu. Jafnframt var haft samband við aðila sem ekki höfðu séð sér fært að sækja þessa fundi og óskað eftir samstarfi við þá. Undirtektir voru mjög góðar og birtist afraksturinn í þessu riti. Fyrir hönd ritnefndar viljum við færa öllum þátttakendum bestu þakkir fyrir þeirra framlag og fyrir samstarfið. Í ritinu birtist yfirlit yfir vistheimtarstarf hjá allmörgum aðilum, auk lista yfir helstu vistheimtarverkefni þeirra. Þar koma meðal annars fram upplýsingar um hvenær verkefnin hófust, stærð þeirra, markmið, aðferðir og samstarfsaðila. Jafnframt er völdum verkefnum lýst nánar. Sambærilegur listi var tekinn saman fyrir rannsóknir er tengjast vistheimt. Þar koma fram grunnupplýsingar um verkefnin auk þess sem vísað er í birt efni um viðkomandi rannsóknir. Einnig er völdum rannsóknarverkefnum lýst nánar. Ritnefnd valdi verkefni til birtingar með hliðsjón af viðmiðum alþjóðlega vistheimtarfélagsins (SER eða Society for Ecological Restoration International) í samráði við þá aðila sem sendu inn efni í ritið. Rit þetta skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn fjallar um bakgrunn vistheimtar á Íslandi; umhverfisaðstæður sem hér ríkja og heildaryfirlit yfir rask á landinu. Einnig er fjallað um lög og aðra stefnumótun er varðar vistheimt og gefið stutt yfirlit yfir sögu vistheimtar hér á landi. Í öðrum hluta ritsins er yfirlit yfir helstu vistheimtarverkefni og vistheimtarrannsóknir eru umfjöllunarefni þriðja hlutans. Í fjórða og síðasta hluta ritsins er fjallað um menntun og fræðslu á sviði vistheimtar á Íslandi. Þrátt fyrir að við höfum reynt að gefa sem best yfirlit yfir vistheimtarstarf á Íslandi er ljóst að ýmis verkefni sem gætu flokkast undir vistheimt hafa ekki ratað í þetta rit. Sem dæmi má nefna verkefni á vegum sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og einstaklinga. Markmið verkefna á vegum þessara aðila eru þó oft önnur en vistheimt og í mörgum þeirra er notað það mikið af innfluttum tegundum að þau falla ekki undir viðmið SER. Einnig vantar óefað í ritið einhver verkefni, sem okkur er ekki kunnugt um, en ættu hér heima. Við biðjumst velvirðingar á þessu og hvetjum jafnframt alla til að halda slíkum verkum á lofti, því það er mikilsvert framlag í þann reynslubanka um íslenska vistheimt sem hér er reynt að stofna til. Einhver kann að spyrja hvaða tilgangi þetta rit eigi að þjóna. Því er til að svara að vistheimt er brýnt málefni og á heimsvísu er vaxandi áhersla á að efla hana. Til að efla vistheimtarstarf á Íslandi er nauðsynlegt að fyrir liggi hvað hefur verið gert og til hvað árangurs það hefur leitt — það er forsenda þess að unnt sé að læra af fenginni reynslu og bæta aðferðir. Slíkt yfirlit er mikilvæg stoð fyrir stjórnsýsluna til að samræma og efla vistheimt og náttúruvernd. Við vonum einnig að þetta rit muni gagnast fræðasamfélaginu og það styrki stöðu íslenskra vistheimtarrannsókna. Jafnframt hefur gerð þessa rits leitt til þess að helstu aðilar er vinna að vistheimt á Íslandi hafa tekið saman yfirlit yfir eigið vistheimtarstarf en slíkt er vel til þess fallið auka áhuga og metnað á þessu sviði hér á landi.is
dc.description.versionNon peer revieweden
dc.format.extent165
dc.format.extent4996312
dc.identifier.citationAradóttir, Á L, Magnússon, G, Halldórsson, G, Svavarsdóttir, K, Arnalds, Ó G & Petursdottir, T 2011, Vistheimt á Íslandi. Landgræðsla ríkisins.en
dc.identifier.isbnISBN 978-9979-881-08-7
dc.identifier.other242842114
dc.identifier.other7adfd726-5773-4aab-919e-0c91b9fee3d9
dc.identifier.urihttps://hdl.handle.net/20.500.11815/8010
dc.language.isois
dc.publisherLandgræðsla ríkisins
dc.rightsinfo:eu-repo/semantics/restrictedAccessen
dc.titleVistheimt á Íslandiis
dc.type/dk/atira/pure/researchoutput/researchoutputtypes/bookanthology/booken

Skrár

Original bundle

Niðurstöður 1 - 1 af 1
Nafn:
Vistheimt_slandi.pdf
Stærð:
4.76 MB
Snið:
Adobe Portable Document Format