Þróun lestrarfærni í 1.–2. bekk í ellefu Byrjendalæsisskólum

Dagsetning

Höfundar


Journal Title

Journal ISSN

Volume Title

Útgefandi

Útdráttur

Góð lestrarfærni er mikilvægur þáttur læsis og ein meginundirstaða lesskilnings og ritunar. Í fyrstu bekkjum grunnskóla er lögð áhersla á að kenna bókstafi og tengsl þeirra við málhljóð og að þjálfa upp lestrarfærni svo nemendur geti lesið lipurt og áreynslulaust. Byrjendalæsi er kennsluaðferð í læsiskennslu fyrir yngstu bekki grunnskóla. Aðferðin myndar umgjörð um læsiskennslu sem á að tryggja að unnið sé með alla helstu undirþætti læsis, þ.e. talað mál, hlustun, lestur og ritun. Jafnframt er lögð áhersla á námsaðlögun þannig að allir nemendur fái kennslu við hæfi. Fyrri rannsóknir á Byrjendalæsi hafa skoðað hvernig lestrarkennsla er útfærð í Byrjendalæsisskólum en hafa ekki náð til árangurs barnanna. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða þróun lestrarfærni barna í 1.–2. bekk í Byrjendalæsisskólum, hjá hópnum í heild og hjá börnum sem greinast í áhættu fyrir lestrarerfiðleika í upphafi grunnskólagöngu. Fylgst var með þróun stafaþekkingar og lesfimi 314 barna í 11 Byrjendalæsisskólum yfir tveggja ára tímabil og framvinda hópsins í heild og þeirra hópa barna sem greindust í áhættu fyrir lestrarerfiðleika skoðuð. Samanburður við opinber gögn og fyrri rannsóknir var notaður til að leggja mat á hvort framvindan væri á einhvern hátt frábrugðin því sem almennt gerist hjá íslenskum börnum. Niðurstöður sýna sambærilega framvindu í stafaþekkingu og lesfimi og fyrri rannsóknir meðal íslenskra barna. Þau börn sem greindust í áhættu/óvissu í einum eða fleiri þáttum á skimunarprófi í upphafi 1. bekkjar náðu minni framförum en þau börn sem voru utan áhættu/óvissu í öllum þáttum, sem getur verið vísbending um að betur þurfi að styðja við þann hóp sem þarf að hafa meira fyrir lestrarnáminu. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa því tilefni til að skoða betur hvernig námsaðlögun er útfærð í Byrjendalæsisskólum og hvort styðja þurfi kennara frekar við að skipuleggja kennsluna þannig að hún mæti þörfum allra nemenda.

Lýsing

Efnisorð

Byrjendalæsi, Lestrarfærni, Stafaþekking, Lesfimi, Námsaðlögun, Beginning literacy, Reading ability, Letter knowledge, Reading fluency, Adaptive learning

Citation

Oddsdóttir, R 2025, 'Þróun lestrarfærni í 1.–2. bekk í ellefu Byrjendalæsisskólum', Netla. https://doi.org/10.24270/netla.2025/18