Opin vísindi

Kvika þjóðarinnar: Þættir úr menningarsögu íslenskra eldgosa frá átjándu öld til okkar daga

Kvika þjóðarinnar: Þættir úr menningarsögu íslenskra eldgosa frá átjándu öld til okkar daga


Titill: Kvika þjóðarinnar: Þættir úr menningarsögu íslenskra eldgosa frá átjándu öld til okkar daga
Höfundur: Antonsson, Atli
Leiðbeinandi: Guðni Elísson
Útgáfa: 2024-05-07
Tungumál: Íslenska
Háskóli/Stofnun: Háskóli Íslands
University of Iceland
Svið: Hugvísindasvið (HÍ)
School of Humanities (UI)
Deild: Íslensku- og menningardeild (HÍ)
Faculty of Icelandic and Comparative Cultural Studies (UI)
ISBN: 978-9935-9736-7-2
Efnisorð: Icelandic literature; Volcanoes; Íslenskar bókmenntir; Eldgos; Sjálfsmynd (sálfræði); Íslendingar; Doktorsritgerðir
URI: https://hdl.handle.net/20.500.11815/4922

Skoða fulla færslu

Útdráttur:

 
[Íslenska] Í þessari doktorsritgerð er reynt að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hvernig hefur nábýli Íslendinga við eldfjöll mótað sjálfsmynd þeirra og hugmyndir um þjóðerni og sögu síðustu 250 árin? Markmið verkefnisins var að finna svar við rannsóknarspurningunni með því að greina frásagnir af eldgosum frá 18. öld til nútímans. Efniviðurinn til að vinna úr var afmarkaður við lýsingar af eldgosum og eldfjöllum sem finna má í skáldsögum, ljóðum, sjálfsævisögum og svokölluðum eldritum frá þessu tímabili. Afrakstur rannsóknarinnar voru fjórar greinar sem hafa komið út í ritrýndum fræðitímaritum og einn kafli að auki. Þessi ritgerð hefst á ítarlegum inngangi, eða svokallaðri kápu. Þar eru útlistaðar fyrri rannsóknir um þetta efni og svo eru aðferðafræði og nálganir rannsóknarinnar útskýrðar og sagt frá þeim hugtökum og kenningum sem koma við sögu í ritgerðinni. Greinarnar og kaflinn koma síðan sem viðaukar aftan við kápuna. Efni þeirra er eftirfarandi: (1) Ritrýnda greinin „Ægifögur reiði“, sem birtist í Ritröð Guðfræðistofnunar, fjallar um guðfræði og fagurfræði eldgosa. Í nútímanum er umfjöllun um eldfjöll að mestu flokkuð undir eldfjallafræði sem rannsakar eðli og orsakir eldgosa á forsendum náttúruvísinda og það virðist vera algeng skoðun að Íslendingar hafi í gegnum aldirnar yfirleitt hugsað um eldfjöll og eldgos á raunsæjan og pragmatískan hátt. Í þessari grein er fjallað um höfunda frá sautjándu til nítjándu aldar sem nálguðust ekki eldfjöllin á þessum forsendum, heldur frekar á forsendum trúarinnar eða listarinnar eða pólitískra hugsjóna. (2) Ritrýnda greinin „Meðvirknin með landinu: um þjóðskáld 19. aldar, sjálfsmyndir og eldgos“ birtist í Skírni. Eins og titillinn gefur vísbendingu um fjallar hún um ættjarðarljóð þjóðskálda á 19. öld og hvernig eldgosum og eldfjöllum er þar lýst. Ákveðin þversögn felst í því að tilgangur eða undirliggjandi forsenda flestra Íslandsljóða er að draga fram kosti landsins og lýsa yfir ást sinni á landinu en tilvist eldfjalla og eldgosa sem eru hættuleg fyrirbæri flækja myndina, til dæmis ef horft er til þeirra hörmunga sem þjóðin gekk í gegnum í móðuharðindunum. Í þessari grein er reynt að svara eftirfarandi spurningu: Hvernig fara skáldin að því að segja frá þeirri ógn sem stafar frá landinu vegna eldfjallanna án þess að gefa ást sína upp á bátinn? (3) Kaflinn „Upprifjun hörmunga“ fjallar um viðtökusögu eldklerksins Jóns Steingrímssonar og ræktun minninga um Skaftárelda. Hann hefst á vangaveltum um það hvers vegna fólk rifjar upp hörmungar. Svo er reynt að svara sértækari spurningum með hliðsjón af íslenskri sögu: Hvers vegna og af hvaða tilefni hafa Íslendingar rifjað upp Skaftárelda? Og jafnframt: Hvers vegna er þeirri upprifjun iðulega miðluð í gegnum verk og persónu eldklerksins? (4) Ritrýnda greinin „Hamfarir samfélagssjónleiksins“, sem birtist í Ritinu og fjallar um svokallaðar stórslysabókmenntir frá öðrum áratug 21. aldar. Óvenju margar skáldsögur voru skrifaðar um eldgos og aðrar náttúruhamfarir á áratugnum 2010–2019 og í þessari grein er kannað hvernig á þessu stendur. Skýringa er leitað í greiningu tíu skáldsagna frá áratugnum sem innihalda eldgos, eða aðrar hamfarir sem minna á eldgos. (5) Ritrýnda greinin „Eldrit á mannöld“, sem birtist í Ritinu, fjallar um Fjallið sem yppti öxlum eftir Gísla Pálsson og bókmenntir á tímum loftslagsbreytinga. Hún er aðeins öðruvísi en hinir kaflarnir/greinarnar að því leyti að hér er fjallað aðallega um eina bók, nefnilega endurminningar Gísla Pálssonar, prófessors og mannfræðings, um uppvöxt hans í Heimaey og eldgosið 1973 sem tortímdi æskuheimili hans. Útgangspunkturinn í umfjölluninni eru orð sem Gísli skrifar nálægt endinum í sinni bók þegar hann lýsir því að hann telji sögu sína hluta af stærra samhengi sem hafi orðið til vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.
 
[English] This PhD thesis tries to answer the following research question: How has the proximity to volcanoes affected the identity of Icelanders and their ideas about nationality and history in the last 250 years? The goal of the project was to find an answer to the research question through analysing narratives about volcanic eruptions from the 18th century to modern times. The material was delimited to description of volcanoes and eruption that can be found in novels, poems, autobiographies and so-called firebooks from this period. The outcome of the research project was four articles that have been published in peer-reviewed journals and one additional chapter. This thesis begins with a detailed introduction, or so-called cover-essay. It begins with a discussion of previous research in the field and then the methods and approach of the research are outlined and the relevant concepts and theories are explained. The articles and the chapter then follow as appendixes to the cover-essay. Their content are as follows: (1) The peer-reviewed article, Ægifögur reiði (e. Sublime Anger), which was published in Studia Theologica Islandica, is about the theology and aesthetics of volcanic eruptions. Today the discussion of volcanoes is mostly classified under volcanology which studies the nature and causes of volcanic eruptions from the premisses of science and it appears to be a widespread idea that Icelander through the ages have mostly had a realist and pragmatic view of volcanoes and volcanic eruptions. This article discusses authors from the seventeenth to the nineteenth century that did not approach volcanoes in this way, but instead from the viewpoint of faith, art, or political ideologies. (2) The peer-reviewed article, Meðvirknin með landinu (e. Traumatic bonding with the land: on 19th century national poets, identities, and volcanic eruptions), was published in Skírnir. As the title alludes it is about patriotic poetry of 19th century Icelandic national poets and how it describes volcanoes and eruptions. It is a certain paradox that the aim or underlying premise of most Iceland-poems is to describe the good things about the country and declare one’s love of the land, but the existence of volcanoes and the threat of eruptions complicate the picture, e.g. when the horrors of the “haze famine” of the 18th century are considered. This article tries to provide an answer to the question how the poets manage to describe the threat posed by volcanoes without letting go of their love for their country. (3) The chapter Upprifjun hörmunga (e. Remembering disasters) is about the reception history of the fire-pastor Jón Steingrímsson and the cultivation of memories about the Laki eruption of 1783–1784. It starts on speculations about the reason why people recollect disasters of the past. Then an attempt is made to answer more specific questions related to Icelandic history: Why and on what occasions have Icelanders chosen to remember the Laki eruption? And in addition: Why is this commemoration almost always mediated through the works and person of the fire-pastor? (4) The peer-reviewed article, Hamfarir samfélagssjónleiksins (e. Metamorphosis of the Social Drama), was published in Ritið and deals with disaster literature from the second decade of the 21st century. A surprising number of novels were written about volcanic eruptions and other natural disasters in the decade 2010–2019 and this article tries to find the underlying reason for this. Answers are sought in the analysis of ten novels from this decade, which include a volcanic eruption, or other similar disasters. (5) The peer-reviewed article, Eldrit á mannöld (e. A Book of Fire in the Anthropocene), which was published in Ritið, is about the book Down to Earth: A Memoir by Gísli Pálsson and literature in the time of climate change. This article is a bit different in that it deals mostly with this one book, the memoir of the anthropology professor Gísli Pálsson about growing up in Heimaey and the volcanic eruption in 1973 that destroyed this childhood home. The starting point of the discussion are the words of Gísli near the end the book that he considers his story to be part of a larger context which has been created by anthropogenic climate change.
 

Skrár

Þetta verk birtist í eftirfarandi safni/söfnum: