Ritgerð þessi til doktorsprófs í íslenskum bókmenntum miðar að því að skilgreina þulur síðari alda (þjóðkvæði frá u.þ.b. 15.–20. öld) sem kveðskapargrein með nákvæmari hætti en áður hefur verið gert og setja þær betur í samhengi íslenskrar bókmennta- og munnmenntasögu. Skilgreining á þulum byggist á helstu sérkennum þeirra, en þau eru einkum fólgin í afar frjálsu bragformi – á mörkum lausamáls – og í lausmótaðri byggingu með miklum tilbrigðum. Þá hafa sterk tengsl við konur og börn talist einkenna flutning á þulum síðari alda og hlutverk þeirra. Þessir þættir eru teknir til ýtarlegrar skoðunar í ritgerðinni, en rannsóknir á þulum síðari alda eru af skornum skammti og hafa helst snúist um tengsl þulna við sambærilegan kveðskap annars staðar á Norðurlöndum og annan samtíðarkveðskap sinn, sem og um varðveislu þulna og söfnun – ásamt öðrum þjóðkvæðum – á 19. öld. Þá er tengslum þulna síðari alda við þulur í íslenskum fornbókmenntum gefinn hér meiri gaumur en áður.
Rannsóknin sýnir fram á það að til þess að skilgreina þulur síðari alda og afmarka þær frá öðrum þjóðkvæðum þarf að nota alla áðurnefnda þætti í senn: bragform, byggingu og flutning. Bragform þulna síðari alda markar mjög sérstöðu þeirra, en þær lúta talsvert sveigjanlegri reglum en viðteknar bragreglur íslensks kveðskapar síðari alda. Þessum sveigjanlegu reglum – sem hér eru nefndar lausbundið mál – er ýtarlega lýst í ritgerðinni. Lausbundið mál er einkennandi fyrir þulur – en önnur þjóðkvæði geta þó einnig verið í slíku formi. Sérstaða þulna síðari alda felst í enn meiri mæli í þulubyggingu sem grundvallast á upptalningum; talin eru upp heiti, minni og jafnframt stærri samsettar einingar (blokkir). Þulubygging einkennist einnig af tilbrigðum og miklum textatengslum. Rannsóknin leiðir í ljós að upptalning sé aðaldrifkrafturinn í þulubyggingu – miklu frekar en t.d. rökrétt frásögn – og að þulur síðari alda hafi að stórum hluta tekið hana í arf frá fornþulum. Áþekka byggingu eða sum hver einkenni hennar er samt sem áður ekki útilokað að finna í öðrum íslenskum þjóðkvæðum. Þá er margt sameiginlegt hvað varðar hlutverk fornþulna og þulna síðari alda, en upptalningar á margvíslegum hlutum og atburðum skapa í hvorum þulukveðskapnum um sig nokkurs konar heimsmynd. Þessi heimsmyndarsköpun virðist vera veigameiri þáttur í þulum fyrr og síðar heldur en frásögn eða lýrísk tilfinningatjáning. Tengsl þulna við eldra fólk og konur (sem flytjendur) og börn (sem áheyrendur) eru vissulega einnig mikilvæg, sem og hlutverk þulna í barnauppeldi, en einkenna hins vegar vart þulur umfram ýmis önnur þjóðkvæði.
Ofangreind sérkenni í bragformi, byggingu og hlutverki þulna þurfa að fara saman og vera studd fleiri þáttum, þ.á m. munnlegri geymd og skyldleika við kveðskap annars staðar á Norðurlöndum, svo að í ljós komi heildarmynd af þulum sem þjóðkvæðagrein. Þannig má greina þulur síðari alda frá öðrum munnmenntum, ekki ólíkum, og afmarka þær með formlegri og skýrari hætti sem heildstætt textasafn með sameiginleg sérkenni sem skýrast að miklu leyti af uppruna þulna síðari alda bæði í þuluhefð miðalda og í nýju efni sem barst frá meginlandi Evrópu undir lok miðalda og á næstu öldum. Frá fornþulum taka þulur síðari alda að verulegu leyti í arf bæði byggingu sína og hlutverk – en bragformið, og að hluta til innihald, er í ætt við það sem gefur að líta í skyldum kveðskap á Norðurlöndum, svo að þar má gera ráð fyrir erlendum áhrifum. Þessi blandaði uppruni er einstæður í íslenskum þjóðkvæðum, eins og kemur nánar fram í niðurstöðum, og skýrir sérstöðu íslenskra þulna síðari alda meðal sambærilegs kveðskapar á Norðurlöndum.
This thesis submitted for the doctorate in Icelandic Literature aims to define post-medieval þulur (a type of folk poetry from roughly the 15th–20th centuries) as a genre of poetry more precisely than has previously been done, and establish their position in the history of Icelandic written literature and oral culture. The definition of þulur is based on their major features, namely very free poetic form – bordering on prose – and loose and variable structure. Strong connections with women and children have also been thought to characterize their performance and function. These features of þulur are first scrutinized in this thesis, since there is little research on post-medieval þulur, and what there is deals chiefly with their relationship to similar poetry elsewhere in Scandinavia and to other Icelandic folk poetry, their preservation and collection in the 19th century. Their relationship to medieval Icelandic þulur is also examined in more detail in this thesis than has been done yet.
This research demonstrates that in order to distinguish post-medieval þulur and define them as a separate genre from other folk poetry the definition must include all the aforementioned features: metre, structure, and performance. Metre is a very special characteristic of post-medieval þulur, in that they are governed by much more flexible rules than Icelandic post-medieval poetry usually allows for. These flexible rules, which are termed here as ‘loose poetic form’, are described in detail in this thesis. Loose poetic form characterizes þulur – however, it can be found in some other Icelandic folk poetry as well. Even more characteristic of þulur is a structure which is based on lists, of heiti, motifs, and larger units referred to as blocks. The structure of þulur is also characterized by variation and intertextuality. The thesis shows that the main organizing princinple in þulur is listing (rather than e.g. logical narrative), and post-medieval þulur have inherited this from medieval ones. Similar structure can nonetheless occasionally be found in other Icelandic folk poetry. Medieval and post-medieval þulur also have much in common regarding function. In each case, lists of a variety of objects and events created inner worlds – and this world-descriptive and -creative activity appears to be a more important feature of þulur, whether medieval or later, than narrative or lyrical expression. The connection of post-medieval þulur to older people and/or women (as reciters) and children (as audience) is also important, as is their function in child-rearing, but these are also found in other forms of folk poetry.
The above features of metre, structure, and function must be combined with oral transmission and relations to similar poetry elsewhere in Scandinavia in order to give a full account of þulur as a genre of folk poetry. We can then distinguish them from other, similar forms of oral culture in a clearer and more precise fashion as a comprehensive collection of texts with common features. These features can be explained to a large degree by their origin in medieval þulur and in new material that came from the European mainland in the Middle Ages and later. Later þulur derive both their structure and, to a certain extent, function from medieval ones; at the same time, both metre and, to a certain degree, contents recall similar poetry elsewhere in Scandinavia, so there we may assume foreign influence. This mixed origin is unique in Icelandic folk poetry, as is shown in more detail in the conclusion of the thesis, and explains the special position of the post-medieval Icelandic þulur.