Title: | Vald og vanmáttur: Eitt hundrað og ein/saga á jaðri samfélagsins 1770–1936 |
Author: | |
Advisor: | Sigurður Gylfi Magnússon |
Date: | 2022 |
Language: | Icelandic |
Scope: | 252 |
University/Institute: | Háskóli Íslands University of Iceland |
School: | Hugvísindasvið (HÍ) School of Humanities (UI) |
Department: | Sagnfræði- og heimspekideild (HÍ) Faculty of History and Philosophy (UI) |
ISBN: | 978-9935-9640-9-0 |
Subject: | Einsaga; Fötlunarfræði; Doktorsritgerðir; Fatlaðir |
URI: | https://hdl.handle.net/20.500.11815/3214 |
Abstract:Í rannsókninni, sem ritgerð þessi byggir á, er grafist fyrir um lífsþræði alþýðufólks sem myndi
flokkast sem fatlað fólk í okkar samtíma. Það var gert með því að rýna í alls kyns opinberar
heimildir, sem varðveittar eru á skjalasöfnum á Íslandi. Tímabilið sem rannsóknin nær til er
1770–1936 og fjallar um eitt hundrað og einn einstakling. Heimildir, sem urðu til hjá opinberum
yfirvöldum eru margvíslegar og afar umfangsmiklar. Í þeim var leitað svara við því hvernig hið
opinbera tungutak mismunandi heimilda speglar hversdagslíf einstaklinganna, líkamlega og
félagslega stöðu þeirra, samhengi og tilfinningalíf. Leitað er fanga úr fórum sagnfræði og þá
sérstaklega aðferðafræði einsögunnar (e. microhistory) og fötlunarfræði (e. disability studies)
og einkum út frá sjónarhorni gagnrýninnar fötlunarfræði (e. critical disability studies).
Hugmyndin er að samþætta þessi tvö fræðasvið því þannig mætti leitast við að draga fram á
sjónarsviðið nær ósýnilega fatlaða einstaklinga úr íslenskri fortíð. Helstu atriðin, sem þarf að
hafa í huga við slíka rannsókn, eru einstaklingarnir sjálfir, æviferill þeirra, hvað þeir lögðu til
samfélagsins og viðhorf samfélagsins til þeirra. Kvillar sem hrjáðu þá skilgreina þá ekki í
samhengi þessarar rannsóknar. Slík nálgun kemur úr smiðju fötlunarfræðinnar. Þar sem þeir
eru ekki lengur á lífi þarf að beita ýmsum aðferðum einsögunnar til að nálgast þessar
upplýsingar úr fortíðinni.
Afrakstur rannsóknarinnar er settur fram í þremur áföngum. Í fyrsta lagi birtast einsögur
allra einstaklinganna. Yrðingarnar, þ.e. umsagnir yfirvalda, gefa til kynna líkamlegt, andlegt og
jafnvel tilfinningalegt ástand þeirra sem við sögu koma. Einnig er sjónum beint að sjálfum
kvillunum. Þeir eru greindir með ýmsum tækjum samtvinnunar (e. intersectionality) til að
greina margþætta mismunun gagnvart fötluðu fólki í íslensku samfélag. Niðurstaðan var sú að
því minni og einfaldari sem kvillarnir voru og því betra skjól það sem einstaklingunum stóð til
boða, því betra líf og samfélagslega samþykktara beið þeirra. Eftir því sem kvillarnir urðu
flóknari og margfaldari og félagsleg staða verri, því hörmulegri var ævin. Vinnuframlag
viðkomandi einstaklinga var það sem samfélagið beindi sjónum sínum að. Ef grunur var um
leti eða einhvers konar aumingjadóm var stimplun samfélagsins afar harkaleg. Viðunandi
vinnuframlag bjargaði þó engum frá samfélagslegri jaðarsetningu, áreiti eða einelti. Í öðru lagi
eru greind ákveðin stef í sögunum, sem draga fram samfélagsleg úrræði eða úrræðaleysi
gagnvart einstaklingunum. Í þriðja lagi er sjónarhorninu beint að ákveðnum einstaklingum með
því að para tvo og tvo saman í tíu undirköflum. Þetta er gert til þess að draga fram andstæður
og/eða hliðstæður í sögum þeirra og þá sértaklega valdaafstæður sem höfðu áhrif á líf fólksins.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að þessi aðferðafræði nær að draga fram
heillega lífsþræði þessara einstaklinga. Þrátt fyrir að hver heimild um einstaklinginn virðist
við fyrsta lestur ansi hlutlæg þá geta þær í sameiningu dregið fram upplýsingar um
tilfinningalíf einstaklinganna, aðbúð þeirra og aðstæður. Þær varpa einnig ljósi á hversu lítið
mátti út af bregða til þess að bærilegar aðstæður fatlaðs fólks breyttust í óbærilegar. Því má
greina mikið álag á fólkið í mörgum þessara sagna. Slíkt ástand bendir til hægfara ofbeldis
sem bæði beindist að einstaklingunum sjálfum og samfélaginu sem þeir voru hluti af. Varpað
er ljósi á misnotkun valds gegn vanmáttugum einstaklingum. Valdbeitingin var margslungin
og jafnvel menningarlega samþykkt þrátt fyrir að um refsiverða hegðun væri að ræða.
|