Opin vísindi

„raunveruleiki hugans [er] ævintýri“ Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur

„raunveruleiki hugans [er] ævintýri“ Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur


Title: „raunveruleiki hugans [er] ævintýri“ Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur
Author: Steinþórsdóttir, Guðrún
Advisor: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir
Date: 2020-01-24
Language: Icelandic
University/Institute: Háskóli Íslands
University of Iceland
School: Hugvísindasvið (HÍ)
School of Humanities (UI)
Department: Íslensku- og menningardeild (HÍ)
Faculty of Icelandic and Comparative Cultural Studies (UI)
ISBN: 978-9935-9491-5-8
Subject: Vigdís Grímsdóttir; Íslenskar bókmenntir; Bókmenntagreining; Hugræn fræði; Sársauki; Ímyndunarafl; Doktorsritgerðir
URI: https://hdl.handle.net/20.500.11815/2592

Show full item record

Abstract:

Í þessari ritgerð er fjallað um valdar skáldsögur Vigdísar Grímsdóttur í því skyni að varpa nýju ljósi á einkenni þeirra og viðtökur. Eftirtaldar sögur eru til umfjöllunar: Stúlkan í skóginum (1992), Þögnin (2000), trílógían Þrenningin (Frá ljósi til ljóss (2001), Hjarta, tungl og bláir fuglar (2002) og Þegar stjarna hrapar (2003)) svo og Dísusaga: Konan með gulu töskuna (2013). Margvíslegum aðferðum er beitt í ritgerðinni en við greiningu sagnanna er þó einkum leitað til hugrænna fræða (e. cognitive science) þar sem bókmenntafræðingar fást ekki aðeins við texta heldur skoða einnig áhrif hugarstarfsemi höfunda og lesenda á hann til að öðlast betri skilning á honum. Ritgerðin mun vera fyrsta íslenska doktorsritgerðin um bókmenntir sem styðst fyrst og fremst við hugræn fræði. Rannsóknin sem unnin var, er tvískipt: annars vegar er hún greining á sögunum þar sem samþættar eru ýmsar kenningar, einkum úr bókmenntafræði, sálfræði og lífvísindum; hins vegar felur hún í sér könnun með eigindlegum aðferðum á tilfinningaviðbrögðum og samlíðan raunverulegra lesenda andspænis persónum og aðstæðum í heilum skáldsögum Vigdísar eða stuttum textabrotum. Skoðað er sérstaklega hve vel lesendum gengur að ferðast inn í heima skáldskaparins og hvaða áhrif bakgrunnur þeirra og reynsla getur haft á upplifun þeirra af skáldskapnum. Auk þess er kannað hvaða aðferðum Vigdís beitir til að leiða þanka lesenda inn á ákveðnar túlkunarslóðir. Greining á hvoru tveggja í senn, sögum og viðtökum – þar sem hugað er að fleiri lesendum en gagnrýnendum/bókmenntafræðingum – ætti að geta aukið skilning fólks á sögum Vigdísar. Mörkin á milli skáldskapar og veruleika í verkum Vigdísar eru oft óljós. Hlutverk ímyndunarafls og sköpunarhæfni persóna hennar er því lykilatriði. Hvort tveggja tengist náið ríkjandi einkennum í þeim sögum sem fjallað er um í ritgerðinni: einkaheimum persóna, ímynduðum vinum þeirra, sársauka, sjálfsmyndum, sjálfsblekkingu, samlíðan og valdabaráttu svo ekki sé minnst á þemu eins og ást, í margvíslegum myndum, og þrár sem ekki er unnt að uppfylla. Öllum þessum atriðum er gefinn gaumur bæði í greiningu á verkunum og í lesendarannsóknum sem sagt er frá. Með völdum dæmum úr sögunum eru einkennin/þemun einangruð og greind nákvæmlega en í sumum tilvikum kann umfjöllun um þau þó að skarast. Persónur Vigdísar eiga oft erfitt með að finna sér samastað í þeim heimi sem þær lifa í og kjósa því að nýta ímyndunaraflið og sköpunarhæfnina til að skapa sér einkaheima og um leið ímyndaða vini til að takast á við veruleikann. Rætt verður um slíka sköpun meðal annars með hliðsjón af kenningum um mögulega heima, ónáttúrulegar frásagnir og ímyndaða vini. Í rannsókn á viðtökum á verkum Vigdísar verður einnig hugað að ímyndunarafli og sköpunarhæfni með tilliti til lesenda. Til dæmis er skoðað hvernig lesendur nýta hvort tveggja þegar þeir fylla inn í eyður verkanna sem þeir lesa og búa sér til bakgrunnssögur um persónur og sögusvið. Vigdís hefur frá upphafi ferils síns verið öflugur talsmaður réttinda kvenna og barna. Það sést best á því hve óhrædd hún hefur verið við að stinga á ýmsum kýlum samfélagsins í sögum sínum og fjalla um efni sem eru eða hafa verið tabú, eins og til dæmis kynferðislegt ofbeldi og vald og valdaleysi tengt því. Tekin eru ýmis dæmi um slík efni ekki síst í greiningu á Dísusögu: Konunni með gulu töskuna. Sú saga rekur þætti úr lífi skáldkonunnar en þar sviðsetur Vigdís sjálfa sig og segir frá raunverulegum atburðum og reynslu með hjálp skáldskaparins. Meðal annars greinir hún frá nauðgun, sem hún varð fyrir sem barn, og fjallar um afleiðingar hennar. Í skrifum um verkið er rætt um mismunandi viðhorf til kynferðisafbrota á ólíkum tímum með hliðsjón af viðtökum þeirra verka Vigdísar sem hafa verið tengd persónu hennar sjálfrar og skoðað hverjar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis geta verið með tilliti til kenninga um tráma, samræðusjálf og hugtakslíkingar. Þá er einnig sérstakur gaumur gefinn að því hvernig það er að vera kona í karllægum bókmenntaheimi en Dísusaga fjallar einum þræði um hvernig Vigdís varð rithöfundur. Í ritgerðinni er vísað til flestra bóka Vigdísar, auk fjölda viðtala við hana, svo lesendur ættu að fá allgóða yfirsýn yfir höfundarverk skáldkonunnar og sjá ýmsa þætti þess á annan hátt en áður.

Files in this item

This item appears in the following Collection(s)