Titill: | Lýðræði í mótun: félagastarf, fjölmiðlun og þátttaka almennings 1874-1915 |
Höfundur: | |
Leiðbeinandi: | Guðmundur Hálfdanarson |
Útgáfa: | 2021 |
Tungumál: | Íslenska |
Umfang: | 1-284 |
Háskóli/Stofnun: | Háskóli Íslands University of Iceland |
Svið: | Hugvísindasvið (HÍ) School of Humanities (UI) |
Deild: | Sagnfræði- og heimspekideild (HÍ) Faculty of History and Philosophy (UI) |
ISBN: | 978-9935-9563-4-7 |
Efnisorð: | Lýðræði; Stjórnmálasaga; Félagssaga; Menningarsaga; Félagsstörf; Sagnfræði; Doktorsritgerðir |
URI: | https://hdl.handle.net/20.500.11815/2475 |
Útdráttur:Á árunum 1874–1915 tók íslenskt samfélag margháttuðum breytingum sem birtust m.a. í efnahags- og félagslegum umskiptum sem tengdust þéttbýlismyndun og lýðræðisþróun. Íslenska sveita-samfélagið átti undir högg að sækja eftir að hafa verið allsráðandi samfélagsgerð fram til þessa tíma. Fjöldi fólks fluttist úr sveitum til sjávarsíðunnar eða vestur um haf, þéttbýli óx og vöxtur hljóp í sjávarútveg og iðnað. Sveitasamfélagið lifði þó áfram, bæði sem veruleiki og hugmynd. Til þess var oft vísað, bæði á rannsóknartímanum og síðar, sem fyrirmyndar og uppsprettu þjóðlegra gilda og menningar. Þetta tímabil einkenndist af vaxandi réttindum almennings, bættri alþýðumenntun og meiri félags- og menningarlegri virkni, sem birtist m.a. í frumkvæði almennings að stofnun margvíslegra félaga og þátttöku í menningarviðburðum. Það ásamt vexti útgáfustarfs efldi og stækkaði hið opinbera rými. Árið 1915 var íslenskt samfélag mikið breytt frá því sem það var rúmum 40 árum fyrr.
Ýmsar hindranir voru í vegi félagastarfs á Íslandi á 19. öld, bæði hugarfars- og efnislegar. Íhaldssemi var rótgróin og andstaða var við breytingar á samfélagsgerðinni. Það viðhélt jaðar-setningu stórs hluta landsmanna (einkum kvenna og fátækra karla). Landið var strjálbýlt, innviðir samfélagsins veikir og samgöngur víða erfiðar. Fátækt og hörð lífsbarátta voru hlutskipti stórs hluta landsmanna sem þrengdi svigrúm þeirra til félagsstarfa. Þrátt fyrir þessar hindranir varð til á síðasta fjórðungi 19. aldar fjölbreytt félagastarf á Íslandi með þátttöku fólks af báðum kynjum, ýmsum aldri og úr mörgum þjóðfélagshópum. Það var þó ekki fyrr en undir lok 19. aldar sem fyrstu skipulögðu félagshreyfingarnar tóku að myndast.
Markmið þessarar rannsóknar er að greina lýðræðisþróun á Íslandi á tímabilinu 1874–1915 og hvort – og þá hvaða – áhrif almenningur hafði á þessa þróun. Áherslan er á virkni og þátttöku almennings í starfi félaga og félagshreyfinga sem studdu með beinum eða óbeinum hætti við eflingu og þróun lýðræðis og er sjónum sérstaklega beint að Austurlandi. Við greininguna er reynt að varpa ljósi á afstöðu almennings gagnvart lýðræðisstofnunum og kjörnum fulltrúum en einnig er tekið tillit til annarra áhrifaþátta, s.s. þróunar menntunar á tímabilinu, búsetu- og atvinnubreytinga og valdaafstæðna í nærsamfélögum. Í hnotskurn er þessu verki ætlað að vera félags-, menningar- og stjórnmálasöguleg rannsókn á áhrifum (eða áhrifaleysi) almennings á lýðræðisþróun á Íslandi á tímabilinu 1874–1915. Þó þessi rannsókn taki til alls landsins er megináherslan á austfirskt samfélag tímabilsins. Með Austurlandi er hér átt við Múlasýslur. Með þessari afmörkun fæst meiri dýpt í rannsóknina og hún eykur möguleika á að varpa skýrara ljósi á samspil einstaklinga, félaga og valdaafstæðna, en ef stærri hluti landsins eða landið allt væri undir.
Þessi rannsókn byggist á eftirfarandi grundvallarspurningu: Hafði íslenskur almenningur, starfandi félög og félagshreyfingar merkjanleg áhrif á þróun íslenskra stjórnmála, lýðræðis og samfélags á rannsóknartímanum (1874–1915)? Ef svarið er já er afleidd spurning: Hvaða áhrif? Ef svarið er nei er næsta spurning: Hvers vegna? Þessi grundvallarspurning mótar efnistöku og nálgun í öllum þremur meginhlutum ritgerðarinnar og henni, sem og afleiddum sértækari spurningum, er leitast við að svara í niðurstöðukafla.
Rannsóknin skiptist í þrjá meginhluta: „Lýðræði, samfélagsgerð og fjölmiðlun“, „Almenningur, heimilin og almannarými“ og „Austurland: samfélag, lýðræðisþróun, félagastarf og fjölmiðlun.“ Efnislega færist sjónarhorn rannsóknarinnar frá hinu almenna til hins sértæka. Annar hluti miðast við landið allt, þriðji hlutinn einnig en með skýrri austfirskri áherslu og fjórði hluti miðast við Austurland. Í fimmta og síðasta hlutanum eru niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman.
Annar hluti hefst á umfjöllun um lýðræði, inntak þess, þróun og væntingar sem til þess eru gerðar. Lýðræðisþróun á Íslandi á 19. öld og til loka rannsóknartímans er þar skýrð, sett í fræðilegt samhengi og tengd við sambærilega þróun í nágrannalöndum. Þar er einkum byggt á rannsóknum Jean Grugel, David Held og Charles Tilly. Markmið þessa hluta er að skýra félagsgerð íslensks samfélags og undirbyggja umfjöllun í þriðja og fjórða hluta. Rætt er um megin hugmyndastrauma sem mótuðu íslenskt samfélag og mismunandi stöðu þjóðfélagshópa gagnvart lýðræðislegum réttindum, um félagslega aðgreiningu í íslensku samfélagi, á hverju hún byggði og hvernig henni var viðhaldið, um hlutverk valdhafa og um opinberar umræður, upplýsingadreifingu og sköpun almenningsálits, með áherslu á vaxandi hlutverk fjölmiðla.
Í þriðja hluta er leitast við að skýra vöxt og áhrif félaga og félagshreyfinga í íslensku samfélagi á rannsóknartímanum og hlutverk þeirra í lýðræðisþróun. Þessi hluti brúar bilið milli almennrar samfélagslýsingar annars hluta og afmarkaðri umfjöllunar í fjórða hluta. Rætt er um tilkomu og vöxt félaga og félagshreyfinga á Íslandi frá því um miðja 19. öld og fram á upphaf 20. aldar með hliðsjón af kenningu Jürgen Habermas um almannarými. Rætt er um félagslega þætti sem sköpuðu forsendur fyrir vexti félagastarfs og fjallað um félags- og menningarlegt ástand, einkum með tilliti til áhrifa heimila og nærsamfélags og möguleikum fólks til að afla sér þekkingar og efla félagslega færni sína.
Fjórði hluti beinist að félags-, atvinnu- og búsetuþróun á Austurlandi á rannsóknartímanum, einkum í sveitasamfélögum en einnig með tilliti til vaxandi þéttbýlissamfélaga. Nálgun þessa kafla er persónumiðaðri og sértækari en fyrri hlutanna tveggja og byggir að verulegu leyti á persónulegum heimildum og skjölum félaga. Umfjöllun þessa hluta styðst við notkun Pierre Bourdieu á hugtakinu doxa og hvernig það mótar samfélög og setur íbúum þeirra mörk og viðmið. Fjallað er um austfirska félagsgerð, búsetuþróun, atvinnuhætti og stöðu menntunar og menningar sem og valdaafstæður í nærsamfélögum og hlutverk fjölmiðla í austfirsku almannarými. Meginefni þessa hluta er þó greining á austfirskum félögum og hlutverks þeirra í samfélagsþróun.
|