Opin vísindi

Húsið og heilinn. Um virkni reimleikahússins í The Shining og þremur íslenskum hrollvekjum

Húsið og heilinn. Um virkni reimleikahússins í The Shining og þremur íslenskum hrollvekjum


Title: Húsið og heilinn. Um virkni reimleikahússins í The Shining og þremur íslenskum hrollvekjum
Author: Guðmundsdóttir, Sigrún Margrét
Advisor: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir; Guðni Elísson
Date: 2020-06
Language: Icelandic
Scope: 5–243
University/Institute: Háskóli Íslands
University of Iceland
School: Hugvísindasvið (HÍ)
School of Humanities (UI)
Department: Íslensku- og menningardeild (HÍ)
Faculty of Icelandic and Comparative Cultural Studies (UI)
ISBN: 978-9935-9491-8-9
Subject: Hrollvekjur (kvikmyndir); Hrollvekjur (sögur); Reimleikar; Hugræn fræði; Íslenskar kvikmyndir; Íslenskar bókmenntir; Doktorsritgerðir
URI: https://hdl.handle.net/20.500.11815/1789

Show full item record

Abstract:

Hrollvekjur um reimleikahús snúast oftar en ekki um heila, enda getur verið reimt í heilanum ekki síður en í húsum. Afturgangan í sinni einföldustu mynd hverfist um fortíð sem snýr aftur til að ásækja einstaklinga (sögupersónur eða lifendur), en þessi hugmynd birtist hvað skýrast í meðförum Sigmund Freud þar sem mannsálin verður að gotnesku reimleikahúsi. Í ritgerðinni er leitt að því líkum að gotneskt myndmál hafi ekki einungis áhrif á það hvernig við ræðum um heilann í daglegu tali, heldur hefur gotnesk hugmyndafræði ef til vill einnig haft áhrif á það hvernig heilinn er framreiddur í samtímataugafræði. Litið er til líffræðilegra einkenna taugakerfa eins og þau birtast í reimleikahúsum í nokkrum kvikmyndum og skáldsögum. Í ritgerðinni er sérstaklega fjallað um virkni þriggja reimleikahúsa í tveimur íslenskum kvikmyndum, Húsinu eftir Egil Eðvarsson (1983) og Rökkri eftir Erling Óttar Thoroddsen (2017) og einni íslenskri skáldsögu, Hálendinu eftir Steinar Braga (2011). Í greiningunni er stuðst við fyrirmyndartexta sem fjallað er um í öðrum kafla ritgerðarinnar, The Shining eftir Stephen King (1977). Þó að ekki sé ætlunin að rekja bókmenntasögu íslenskra reimleikahússins er nauðsynlegt að veita svolitla innsýn í sögu og helstu hugðarefni slíkra bókmennta og kvikmynda, hérlendis og erlendis. Því er gerð stuttlega grein fyrir sögu skáldaðra reimleikahúsa í formála ritgerðarinnar, allt frá því að Horace Walpole gaf út skáldsöguna The Castle of Otranto árið 1764 og markaði þar með það sem almennt er talið upphaf gotnesku stefnunnar. Einnig verður rætt um helstu þemu og minni reimleikahússhefðarinnar. Í inngangi eru dregin fram líkindi reimleikahúsa og heilabúsins; sameinkenni fyrirbæranna birtast meðal annars í líkingum sem viðhafðar eru um heilann og í myndmáli reimleikahússins. Gerð er grein fyrir því hvernig hrollvekjur og vísindarannsóknir á starfsemi hugans hafa fylgst að frá á síð-Viktoríutímanum, ef ekki lengur, því að ýmsir höfundar gotneskra skáldsagna virðast hafa stuðst við rannsóknir í taugavísindum við skrif sín. Þá er sagt frá samtímarannsóknum í taugafræði sem hafa kortlagt óttasvæðin í heilanum og tengt þau við reimleikahús með hjálp líkinga. Einnig er rætt um það hvernig hrollvekjur taka sér stundum bólfestu í hugum áhorfenda og breyta heila þeirra um leið í nokkurs konar reimleikahús. Það er óhætt að fullyrða að Overlook-hótelið í The Shining sé eitt þekktasta reimleikahús á seinni hluta 20. aldar og áhrifa þess gætir sennilega í flestum reimleikahúsasögum og kvikmyndum sem komið hafa út síðan. Í ritgerðinni eru þrjú frásagnarminni úr The Shining dregin fram og þau greind í íslensku verkunum þremur. Fjallað er um hvaða öfl hrekja Torrance-fjölskylduna í sögunni inn í reimleikahúsið, Overlook-hótelið, en það eru ekki síst fjárhagsaðstæður. Einnig er rætt um hvernig reimleikahúsið gerir sig aðlaðandi fyrir hina nýju íbúa til þess að byrja með. Þá er greint frá því hvernig húsið birtir tráma fjölskyldunnar. Að lokum er rætt um kynferðisofbeldi, sem virðist vera leyndarmálið sem liggur dýpst grafið í húsinu. Fyrsti greiningarkafli íslensku verkanna fjallar um Húsið eftir Egil Eðvarðsson sem er fyrsta íslenska kvikmyndaða hrollvekjan í fullri lengd. Það er kannski engin hending að hún sæki í hefð reimleikahúsakvikmynda því þær nutu mikilla vinsælda á Vesturlöndum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, en The Shining var þar fremst í flokki. Húsið í kvikmyndinni er eins og flest önnur reimleikahús grafreitur gotneskra leyndarmála en að sama skapi er það staður þar sem leyndarmál lifna við – og ganga aftur. Reimleikahúsið er því jafnan trámatískur staður, eða birtingarmynd trámans sem ásækir huga íbúanna – eins og einnig er rætt um í fyrirmyndardæminu The Shining. Reimleikahúsið í kvikmynd Egils birtir tráma aðalpersónu Hússins og er þetta áfall greint með hliðsjón af nýlegum rannsóknum geðlæknanna Bessel van der Kolk og Onno van der Hart. Annar greiningarkaflinn fjallar um Hálendið eftir Steinar Braga. Í skáldsögunni er virkni reimleikahússins ekki bundin eiginlegu húsi heldur er hún fólgin í landslaginu. Þannig fylgir Steinar Bragi hefð norrænna gotneskra sagna þar sem myrkar og óvægnar óbyggðirnar birta það sem innra með sögupersónum hrærist. Sagan gerist rétt eftir hrun og fjallar um það hvernig fjárhagsvandræði festa sögupersónur í reimleikahúsinu – sem er eitt af þeim atriðum sem dregið hefur verið fram í sýnidæminu – nema að þessu sinni er reimleikahúsið í raun hálendi Íslands. Í kaflanum verður rætt um ótta og áföll sögupersóna og sýnt hvernig hvort tveggja endurspeglast í íslenskri auðn. Þriðji greiningarkaflinn fjallar um kvikmyndina Rökkur eftir Erling Óttar Thoroddsen. Kvikmyndin er frá árinu 2017 og fjallar – eins og elsta íslenska hrollvekjan í fullri lengd – um reimleikahús. Í kvikmynd Erlings hefur reimleikahúsið þó þróast í takt við breyttar áherslur á 21. öldinni; það veitir hvorki skjól gegn veðri né vindum, því það er ekki úr timbri, steypu eða steini. Draugarnir í Rökkri hanga nefnilega á netinu og í snjalltækjum, sem eru jafnframt birtingarmyndir vitundarinnar líkt og náttúran í Hálendinu og húsið í kvikmynd Egils. Erlingur beinir sjónum sérstaklega að þeim hættum sem kunna að steðja að ungum hommum og gerir það á forsendum hrollvekjugreinarinnar því að sögupersónur hans verða fyrir kynferðisofbeldi, rétt eins og greina má einnig í The Shining. Aðlöðunarferðlið sem gerendurnir beita í Rökkri er hliðstætt því sem Overlook hótelið notar til að lokka til sín fórnarlömb nema að þessu sinni eru það spjallrásir og samfélagsmiðlar sem orka eins og veiðitæki fyrir skrímslin í kvikmyndinni, sem sitja þar fyrir aðalpersónum hennar. Frásagnarminnin þrjú; fjármál, tráma og kynferðisofbeldi koma flest fyrir í fleiri en einu íslensku verkanna sem greind eru í ritgerðinni. Það er líka eitt helsta einkenni reimleikahúsa að í þeim er fólgin áráttukennd endurtekning. Í lokaorðum er dregin ályktun um merkingu hennar; einkum þá þekkingu sem reimleikahúsið kann að miðla til lesenda og áhorfenda í krafti endurtekinna minna.

Files in this item

This item appears in the following Collection(s)